Skip to: Site menu | Main content

 

Hreindýraveiðiferð Sigurgeirs og Hjartar með Hákoni Aðalsteinssyni 09 sept 2006

Hákon Aðalsteinsson leiðsagði mér og vini mínum honum Sigurgeir haustið 2006 á hreindýraveiðum. Áttum við eina kú og jafnframt höfðum við hug á því að taka einnig kálfinn líka. Mættum við seinnipart dags á hlaðið að Húsum í Fljótsdal, en við vorum á pallbíl með gistihúsi á pallinum og gistum við því á hlaðinu hjá Hákoni. En eins og fyrr segir komum við þarna seinnipart dags, kynntum okkur fórum svo yfir áætlun næsta dags og strax við fyrstu kynni fann maður vel hvern mann Hákon hafði að geyma. Hann var strax svo viðkunnalegur að það var eins og maður hafði þekkt Hákon alla tíð. Var ákveðið miðað við hvar hjarðirnar hefðu verið um daginn að nóg væri að fara upp 08:30 daginn eftir sem og varð. Þegar upp á heiði var komið sáum við fljótlega hjörð en í henni voru menn og fylgdumst við aðeins með en snerum frá að hyggja að annari hjörð. Var alveg ljóst að þarna þekkti Hákon hvern stein og hverja þúfu eins virtist hann fullkomlega gera sér grein fyrir hegðun dýranna og gera sér einnig grein fyrir hvar þau væru miðað við veðurfar, eins hvar þau kæmu niður af einhverju landssvæði. En á meðan leit okkar stóð runnu upp úr Hákoni hver sagan á fætur annari og gamanmálið. En svo sáum við hjörð og leiðbeindi Hákon okkur með hvernig við ættum að nálgast hjörðina og koma okkur í færi og gekk það eftir. Sátum þar í rólegheitum, Hákon var að segja okkur frá sjón og lyktarskini dýranna. Komum okkur svo saman um hvaða kýr ég ætti að skjóta en þetta var í fyrsta skiptið sem við vorum á Hreindýraveiðum báðir, kúin sem stóð næst okkur var í 125 metra færi. Skaut ég kúna og kipptist hjörðin þá til en ekki meira en svona 10 metra, svo þegar Sigurgeir var að setja sig í stellingar til að skjóta kálf kýrinnar þá ber að menn úr vindátt að hjörðinni og fældist hún þá burt. Gerðum þá að kúnni og komum henni í bílinn og var tekin sú ákvörðun að koma henni heim flá hana og koma henni í kæli sem við og gerðum. Var Sigrún kona Hákons nýbúin að baka dýrindis lummur sem Hákon bauð okkur að snæða með sér og einnig Hjálmari í hlað og hans mönnum sem komu og fengu að nota aðstöðuna hjá Hákoni. Eftir að við höfðum notið veitinganna var farið upp á heiði aftur og hafði Hákon margsinnis orð á því að svona ætti að stunda hreindýraveiðar. Fara upp fyrir hádegi skjóta dýr, fara svo fá sér lummur, fara svo aftur upp og taka annað dýr í þessu tilfelli kálf kýrinnar, þetta væri aldeilis frábært! En þannig háttar til að ef kýr er skotinn þá fælist yfirleitt hjörðin og kálfurinn með en svo uppgötvar hann að mamma sé ekki með og fer þá að leita hennar á sama stað og hún var skotinn. Nú við fórum þar sem kúin var skotinn að hyggja eftir henni en sáum engan kálfinn né hjörð og var þá Hákon í sambandi við eftirlits menn að kanna hvar dýrin væru. Sögðu þeir dýr vera eitthvað norðar og bað Hákon um hvort þeir myndu reyna að koma hjörðinni suður aftur þegar þeir væru búnir og játtu þeir því, jafnframt sagði Hákon að ef þeir kæmu hjörðinni suður á bóginn þá myndi hún koma yfir einhvern tiltekinn ás sem hann nefndi nú einhverju nafni. En þarna undi hann sér greinilega fram í fingurgóma og eins og fyrr segir þekkti hvern stein og hverja þúfu. Nema við erum að bíða hvort dýrin koma suður yfir ásinn þegar Sigurgeir segir allt í einu við mig Hjörtur lánaðu mér kíkinn og segir svo þþaaðð eerr KÁLFUR þarna, þá var kálfur á reiki þarna töluvert langt frá okkur. En á svipuðum slóðum og kúin hafði verið skotinn. Nú við komum okkur í færi og skaut svo Sigurgeir kálfinn og var þá dagurinn fullkomnaður. En þá var eftir að koma honum í bílinn og voru um það bil 700 metrar í bílinn og enginn slóði að dýrinu, setti Sigurgeir þá kálfinn á axlirnar og við gengum að bílnum. Þegar við komum að bílnum þá tók Hákon innan úr dýrinu og fórum svo niður að bæ fláðum það og komum í kæli. Fórum svo inn til Hákons gerðum upp leiðsögn, kæligeymslu og fláningu. Meðan við sátum kemur bókasölumaðurinn og tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson að selja bækur og var boðið í stofu og kaffisopa. Fór nokkuð vel á milli þeirra og voru að rifja upp þegar Herbert kom ári áður í sömu erindagjörðum. Svo eftir uppgjörið fórum við út á hlað og sýndi Hákon okkur gamlan GMC sem hann átti út á hlaði, setti hann meira að segja í gang og keyrði fram og aftur á hlaðinu. Að fá að vera þess aðnjótandi að fá að kynnast Hákoni þó að það væri bara rúmlega dagur þá var Hákon Aðalsteinsson algjörlega einn af stórperlum Íslands.

<< Til baka: 1 - 2 - 3 - 4
Sýna fjölda mynda á síðu
9 - 12 - 18 - 21 - allt
 
2008 © Hjörtur Sævar Steinason | Keyrt á Oliver vefumsjón