Skip to: Site menu | Main content

 

F4x4
6.Desember 2013

Sjáið krakkar hér og hér og hér og hér hvað ég meina.

Kveðja JAKINN

Á silungasvæði Vatnsdalsár ágúst 2013
28.September 2013

14 - 17 ágúst

Vakt 1 kvöldvakt

Frá Brúarhyl að Húnavatni vestan megin svæði 4.

Byrjaði ofan við brúnna á þjóðvegi 1 að vestanverðu. Óð út í sefið og dýpkaði fljótt og var ekki hægt að vaða langt út einnig var mikil drulla í botninum, stóð ég í vatni eins og vöðlurnar leyfðu og enn var talsvert sef fyrir framan mig þannig að ekki leist mér vel á þann stað út af sefinu. Líka ertu örugglega í vandræðum ef fiskur tekur að koma honum í gegnum sefið. Gafst ég upp fljótlega og fór að Steinnesi. Er að rölta niður að bakka þega ég sé að það kemur hreyfing á vatnið og svo liðast hún frá bakkanum, hafði fiskur legið alveg við bakkann sem styggðist mig er ég gekk að bakkanum. Sem segir manni enn einu sinni að maður ætti alltaf að byrja að reyna við grunnið áður enn gengið er að bakkanum. Óð ég svo þar út í þar sem átti að vera renna sem mér fannst hvergi vera, virtist sem væri sef þarna um allt allavega var flugan hjá mér alltaf föst í sefi, óð meira að segja uppfyrir í leit að rennunni. Var með þyngda flugu sem ég átti greinilega ekki að vera með þarna í sefinu því það var allt annað að eiga við þetta eftir að ég setti óþyngda flugu undir, var samt ekki fýsilegt í öllu þessu sefi. Setti samt í eina Bleikju sem ég misti, ver ég með Rauðan Francis og datt í hug að reyna að taka sefið af með því að rykkja flugunni upp úr vatninu og niður í það aftur nokkrum sinnum er að þessu slæ flugunni niður í vatnið og upp aftur, viti menn þegar ég er að rífa fluguna upp úr vatninu er þá ekki fiskur á. Var þetta Bleikja sem hefur ætlað í fluguna hjá mér þegar ég rykki upp, þetta hefur verið ca tveggja punda fiskur sem náði að rífa sig lausa. Fór svo niður að Víðihólma og var sama sefið þar, reyndi samt þar einnig en enginn árangur. Datt í hug að kíkja niður í ós, leist vel á Brandanes vestra og reyndi þar en ekkert að hafa þá, var þá vaktin búinn og tími kominn að fara upp í hús. Þegar ég kem að brúnni við þjóðveg 1 eru þar veiðimenn sem segja mér að hægt sé að vaða út að stólpunum og veiða þaðan sem þeir sýndu mér.

Vakt 2 Morgunvakt

Frá Brúarhyl að Húnavatni austan megin svæði 5.

Byrjaði fyrir ofan brúnna en ekkert markvist gerðist þar utan þess að Laxinn var að sýna sig út í á. Fór svo niður fyrir brú bæði með einhendu og tvíhendu og er að kasta þeim á víxl. Set svo Svartan Francis míkró keilutúpu og kasta út er þá tekið í færið og eru það hefðbundnir Laxa taktar þungir dynkir legið í línunni og stokkið öðru hvoru. Nema ég landa fiskinum sem reynist vera 5 punda hængur. Reyni svo eitthvað meira en ekkert. Ek þá niður að Giljá, skoða hana fyrir ofan þjóðveg tek svo ákvörðun að fara niður að Giljárós. Reyni aðeins við Giljánna þar, fer svo í ósinn og reyni hinar ýmsustu flugur og einnig Hits og andstreymisveiði en ekki vildi hann það. Kíkti svo og reyndi aðeins í Langhyl og Krókshyl áður en ég reyndi aðeins við brúnna á þjóðvegi 1 áður en vaktin var búin. Ekki komu fleiri fiskar.

Vakt 3 kvöldvakt

Frá Bakkastreng að Eyrarhyl svæði 1.

Ók að Eyjólfstöðum og að Ferjuhyl, þar átti að vera góð Bleikjuvon. Er að skoða í fluguboxið þegar ég sé Watson Fancy púpu no 10 afbrigði sem ég hnýtti núna í vor, eins og venjuleg nema um sig miðja var svört háls fjöður úr hana hringvafinn. Ég byrja aðeins fyrir ofan hylinn, er að veiða mig niður eftir þega allt í einu er þrifið í færið, reynist það vera 1,5 punda Urriði, svo skömmu síðar er aftur þrifið í færið hjá mér og reynist það einnig vera Urriði 2 pund. Er að veiða mig svo áfram niður þegar enn er rifið í færið hjá mér og enn er það Urriði 3 pund allir á sömu fluguna. Klára svo að veiða hylinn. Ákveð svo að renna aftur yfir Ferjuhyl, náði engum en misti 2 og eitt högg. (Sá sem svo átti Ferjuhylinn næsta morgun fékk bara Bleikjur svo eitthvað var þetta skrítið með Urriðana mína). Fer svo niður að Veiðistaðnum Grjótin, veiði hann niður með sömu flugu þar til að ég tíni henni. Held áfram að veiða mig niður eftir með Svartan Francis míkró keilutúpu niður í Kornsárós fæ eitt högg á leiðinni svo er ég að veiða Kornsárósinn skipti um flugu set rauðleitan Nobler no 10. Í öðru kasti er rifið í færið hjá mér og er það um það bil 4 punda Lax sem náði að rífa sig lausann. Er nú klukkan að verða og tími til að fara í hús.

Vakt 4 morgunvakt

Frá Húfuhyl að Arnarhyl svæði 2.

Ók fram dalinn lengra en ég átti að fara og var að leita að minkahúsinu því þar átti vaðið að vera til að komast að vesturbakkanum, fann álitlegt hús í sónaukanum en sá ekki neina rétt sem átti að vera á vesturbakkanum. Ók þá til baka þar til að ég fann Minkahúsið og réttina og fann vaðið, er svo að aka norður vesturbakkann í leit að rétta hliðinu að Gilstaðarbug er ég rakst á Náttúru undur sem kallast Kattarauga, stoppa og skoða og líst vel á því út í þessum djúpa pytti eru tveir hólmar sem eru á floti. en svo fór ég loks að veiða. Byrjaði ofarlega í Gilsstaðarbug og er að veiða niður hylinn með bleika Rækjuflugu ekkert er að gerast og ákveð ég að skipta um flugu, línan er kominn beint niður af mér og rykki ég henni frekar hratt inn þegar allt í einu er þrifið í hinn endann, reynist það vera um það bil 4 punda Lax sem ég var með svona í 15 mínútur þegar hann reif sig lausann rétt þegar ég ætlaði að landa honum. Veiddi mig svo áfram niður hylinn án nokkurra tíðinda. Fór svo annað rennsli niður hylinn svo þegar ég er kominn í miðjan hylinn nokkurn veginn þá er rifið í hinn endann og er það einnig Lax sem ég var með í um það bil 5 mínútur, sýndi hann sig og var um það bil 4 - 5 pund þegar hann yfirgaf endann. Svo aðeins neðar er aftur rifið í línu endann en það var stutt gaman en hann hagaði sér þannig fiskurinn að það ver greinilega Lax en ég sá hann aldrei. Kláraði svo að veiða hylinn án frekari tíðinda. Var þá vaktin nokkurn vegin liðin og ég hundsvektur að hafa ekki landað Laxi þannig að ég fór í hús.

Vakt 5 kvöldvakt

Frá Vaðstreng að Flóði svæði 3.

Byrja í Bríkarhyl vestan megin en þarna er soldið sef og er ég búinn að sjá að ég þoli sefið illa. Reyni samt aðeins með tvíhendunni sá eftir að hafa ekki tekið einhenduna með mér, makkerinn var á austurbakkanum og var ekkert að gerast hjá okkur. Fórum þá að Gosa og var hann ekki eins og hann átti að sér en vel veiðilegur samt. Makkerinn setti í 2 punda Sjóbirting en misti og landaði tveim Bleikjum sem hann sleppti en árangurslaust hjá mér. Svo var klukkan orðin 21:00 og gafst ég upp var ekki í neinu stuði.

 

Vakt 6 morgunvakt

Frá Brúarhyl að Húnavatni vestan megin svæði 4.

Fórum beint að brúnni við þjóðveg eitt. Ég kom mér fyrir á stólpanum undir brúnni en makkerinn var í landi í sefinu. Nú veðrið hafi breitt sér kominn norðan stinnigskaldi og ekkert spennandi svo sem en ég þráaðist við og um kl 10:45 setti ég í Lax um það bil 12 pund sem svo sleit hjá mér og fór með fluguna og hálfan tauminn, en ég var með Svartan Francis míkró keilutúpu. Var búinn að reyna stærri Francis, Naglann, Blue Charm, Green Brahan og þyngdar en ekkert gerðist fyrr en ég setti Svartan Francis míkró keilutúpuna undir. En eins og fyrr sagði fór hann með fluguna og átti ég ekki fleiri svarta setti þá undir Rauðan Francis míkró keilutúpu og fljótlega var hann í henni. Nú og svo 15 mínútum fyrir hættutíma setti ég svo í Lax sem ég náði að landi og reyndist hann vera 5,5 punda hængur. (Makkerinn minn var að veiða annarsstaðr og var því ekki með mér fyrr en síðustu tvær vaktirnar). Var þá þessi ánæjulega veiðiferð á enda og er ég strax farinn að hlakka til næsta árs, En ég hafði ekki veitt þarna áður.

Á sjó með þeim í Veiðivaktinni
29.Desember 2012

 

Sunnudaginn 17 júní hringdu þeir í mig strákarnir í Veiðivaktinni með Gunnari Bender. Höfðu þeir ætlað að mynda efni með strákum á Reykjanesinu sem hættu við, og vantaði efni í næsta þátt. Nú ég var í Skorradalnum rétt að búa mig til heimferðar eftir góða helgi í sumarbústað, og svo sem ekkert á leið að veiða neitt. En þegar ég er að tala við Jón Alfreð Hassing í síma þá dettur mér í hug að fara með þá út á sjó og leist þeim ágætlega á það og segist ég ætlað að hringja í þá þegar ég í bæinn kæmi. Geri það svo og hittumst við svo niður við bryggju, siglum svo út úr Kópavoginum og tökum stefnuna á 6 baujuna sem svo reyndist ekki vera á staðnum, hefur sennilega verið í viðgerð í landi. Reyndum aðeins þar en lítið um að vera, reyndum hér og þar á leið í land en strákarnir höfðu ekki mikinn tíma. Slitum samt upp nokra fiska áður en við fórum svo í land.

Hér má svo skoða myndbandið úr ferðinni

 

Við Þingvallavatn með Gunnari Bender
11.Júní 2012

Fór í útilegu að Þingvöllum helgina 1 - 3 Júní 2012. Ég þekki annan kvikmyndatökumanninn sem er að taka myndir hjá honum fyrir Veiðivaktina og var hann búinn að nefna við mig hvort hann mætti koma kannski á laugardeginum 2 júní og taka myndir af mér við veiðar. Mér fannst það alveg sjálfsagt. Hringdi hann svo í mig og vildi koma um miðjan dag og fannst mér það ekki góður tími, vildi frekar fá þá snemma um morgun eða seint um kvöld. Komu þeir svo um 18:30 og byrjuðu á því að tala við mig og taka myndir þegar ég var að búa mig, löbbuðum svo niður að vatni við Öfugsáðann, kom ég mér fyrir og fór að kasta. Á Öfugsnáðanum voru tveir menn fyrir og einn kvenmaður sem öll fengu fisk nema ég, mennirnir fengu sínhvora Bleikjuna og kvenmaðurninn 2 Bleikjur. Við vatnið var töluverður vindur af suðvestri sem lægði ekkert fyrr en seint um kvöldið en þá voru þeir farnir og ég hættur að veiða. Var svo inn á tjaldsvæði um nóttina og fór á stjá um kl 07:00 á sunnudagsmorgun. Fór ég á Öfugsnáðann aftur og voru þá þar þrír menn Siggi Páfagaukur og tveir aðrir, Siggi hafði byrjað um kl 03:00 og var kominn með nokkrar góðar í poka. Ég setti fljótlega í fisk og var í ágætis kroppi til kl 10:30 en þá hringdi ég í Jón kvikmyndatökumann hjá Gunnari Bender og tikynnti ég honum að ég væri búinn að fá 9 stykki með því sem ég missti og sleppti. Veðraðist hann allur upp og vildi endilega koma strax en ég sagði það ekki rökrétt, hann væri byrjaður að kula aðeins eins og hann gerir alltaf á daginn og þá líka tæki botninn úr veiðinni. Ákváðum við svo eftir að hann var búinn að ráðfæra sig við sína menn að fara aftur uppeftir kl 05:00 á mánudagsmorguninn sem við og gerðum. En ég hélt áfram að veiða til kl 13:30 þá búinn að fá 11 fiska en ég fór heim með 4 góðar Bleikjur. Nú á mánudeginum vorum við komnir að Þingvallavatni um kl 06:00 og var þá alveg stafalogn fuglasöngur og allt eins og blómstrið eina. Ók ég að Snáðanum en sá mér til skelfingar að þar var uppselt, nú voru góð ráð dýr ég var kunnugastur á Öfugsnáðanum og þótti þetta verra. Fórum þá að Vatnskoti en þar hafði ég ekki veitt frá því ég var um tvítugt og var það ekki í gær. Var að veiða hér og þar í Vatnskoti þar til að ég loks hitti á hann. Náði þrem fiskum síðasta hálftímann, einni Murtu og tveim fínum Bleikjum.

En hér má sjá myndbandið

JEPPI !!!
28.Nóvember 2011

Jeppi
nafnorð, karlkyn

Notkun og merking

Í Íslenskri orðabók (2002) eru gefnar upp tvær merkingar nafnorðsins jeppi og er sú fyrri skýrð svo:

Sterkbyggður bíll með hátt undir öxlum, með drifi á öllum hjólum og millikassa til að breyta drifstyrknum, upphaflega gerður til aksturs á vegleysum eða vondum vegum

Reyndar er líklegt að ýmsir málnotendur noti orðið á eitthvað frjálslegri hátt en hér er boðað og skeyti t.d. lítt um millikassa og drifstyrk – en þeir sem handgengnastir eru jeppunum telja þetta trúlega alvörumál.

Seinni merkingin er merkt sem slangur og tilfærð samheitin gaur og mannkerti. Nokkur dæmi um slíka notkun orðsins er að finna í talmálssafni OH, og er þess þá stundum getið að það sé helst haft um menn sem láta mikið á sér bera eða eru uppivöðslusamir.

Loks má nefna að Orðabók um slangur (Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson 1982) gefur einnig upp þriðju merkinguna: nýliði á togara.

Saga og uppruni

Venjulega er haft fyrir satt að orðið jeppi sé dregið af enska heitinu jeep sem haft var um létta og sterkbyggða torfærubíla bandaríska hersins í seinni heimsstyrjöld. Þessi farartæki bárust fyrst hingað til lands með hernámsliðinu og eftir stríðið, þegar farið var að framleiða bílana fyrir almennan markað, urðu þeir vinsælir á Íslandi, einkum til sveita. Í upphafi voru það víst einungis arftakar bandaríska herbílsins (Willysjeppar) sem báru jeppanafnið en þegar fleiri tegundir sambærilegra farartækja fóru að flytjast til landsins voru þeir einnig nefndir jeppar. Elsta dæmi um orðið jeppi í merkingunni 'bíll' sem Orðabókinni er kunnugt um er úr leikritinu Leynimelur 13 eftir Emil Thoroddsen og Harald Á Sigurðsson en það var frumsýnt árið 1943.

Það má kallast nokkuð sérkennilegt að íslenska heitið jeppi virðist dregið af rithætti enska orðsins jeep fremur en af framburði. Hefði framburðurinn ráðið (eins og t.d. í sjoppa, öðru tökuorði frá stríðsárunum) hefði mátt búast við að fyrirbærið væri kallað *díp(i), *síp(i) eða eitthvað þvíumlíkt. Þarna gæti skipt máli að fyrir var í landinu annar Jeppi, nefnilega Jeppi á Fjalli, titilpersóna í vinsælu leikriti Holbergs. Leikritið um Jeppa á Fjalli var fyrst sýnt hérlendis á seinni hluta 19. aldar og margsinnis eftir það svo að sá Jeppi var löngu orðinn þjóðkunnur á stríðsárunum. Raunar má telja líklegt að seinni merkingin sem Íslensk orðabók tilfærir (gaur, mannkerti) eigi rætur að rekja til Jeppa á Fjalli. Svo hefur mönnum e.t.v. ekki þótt illa til fundið að sveigja enska heitið á fyrsta vélknúna farartækinu sem var fært á fjöll hérlendis í átt til persónu sem var kennd við Fjall. Því er svo við þetta að bæta að karlmannsnafnið Jeppe eins og Jeppi á Fjalli heitir á frummálinu hefur tíðkast í Skandinavíu a.m.k. frá því á 15. öld og er upphaflega e.k. gælumynd af postulanafninu Jakob. Ekki er vitað til að Jeppi hafi verið notað sem karlmannsnafn á Íslandi en dæmi eru um það sem gælunafn á hundum.

Svo aftur sé vikið að enska heitinu jeep, þá er uppruni þess hreint ekki ljós. Oft er haft fyrir satt að það sé dregið af framburði skammstöfunarinnar GP sem að sögn stóð fyrir general purpose (vehicle) eða 'farartæki til almennra nota' en það á að hafa verið hið opinbera heiti herstjórnarinnar á þessu tæki. Sumir draga þessa skýringu þó í efa og er þá enn nefnd til sögunnar persóna úr bókmenntum. Þar er um að ræða furðuskepnu sem kom fram á sjónarsviðið um 1936 í myndasögunni um Stjána bláa (e. Popeye). Skepna þessi nefnist Eugene the Jeep og er mörgum hæfileikum prýdd, hún er m.a. forspá, getur gengið gegnum veggi og aðra farartálma en segir aðeins eitt orð: „jeep“. Sögurnar um Stjána bláa nutu mikilla vinsælda á stríðsárunum – rétt eins og herjeppinn – og því telja margir að jeppinn sé í raun nefndur í höfuðið á þessari persónu, sem eins og jeppanum voru fleiri vegir færir en öðrum.Heimildir:

Söfn Orðabókar Háskólans.

Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
Bontly, Glenn. 1998-2003. Jeep History. (http://www.webejeepin.com/Jeep-History.htm)
Helgi Þorláksson. 1994. Jeppi: Fyrsta áfangaskýrsla. Gullastokkur færður Gunnlaugi Ingólfssyni fimmtugum, 4. desember 1994; bls. 38-40. Reykjavík
Íslensk Orðabók. 2002. 3. útg. Ritstj. Mörður Árnason. Edda. Reykjavík.
Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson. 1982.Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Svart á hvítu. Reykjavík.
Søndergaard, Georg. 1979. Bogen om personnavne. Politikens Forlag. København.
wordorigins.org

Stóra Laxá
27.Ágúst 2010

Það var um miðjan júní 2010 að félagi minn Sigurgeir sendi mér tölvupóst og plataði mig með sér í Stóru Laxá svæði I - II þann 13 og 14 júlí. Ég var fljótur að segja já enda ekki vanur að neita ef veiði er í boði. Leið nú að 13 júlí og væntingarnar komnar á flug. Þegar við komum austur gekk hann á með þrumum og eldingum um miðjan dag og var frekar þungbúið. Tveir Danir voru  þarna fyrir, sem áttu sitt hvora stöngina og áttum við Sigurgeir líka sitt hvora. Danirnir ætluðu síðan að fara í Sogið næsta dag og voru þá tvær stangir ónotaðar í ánni þann hálfa daginn, en þeir voru búnir að vera þarna í 3 daga með leiðsögumanni. Við náðum þarna að manna aðra ónotuða stöng Dananna þegar Svanur félagi okkar kom svo um nóttina og eyddi með okkur seinni vaktinni. Við byrjuðum í Kálfhagahyl og Illakeri og reyndum hinar ýmsu flugur og kasttækni, fyrst litlar og léttar, einnig Hits og fórum svo í stærri og loks í  þungar túpur með tvíhendu en allt kom fyrir ekki. Félagi Sigurgeirs sem kom í heimsókn kom gangandi niður hlíðina og sagðist hafi séð fisk í Kálfhagahylnum. Sigurgeir fór þá þangað sem fiskurinn hafði sést og byrjaði að kasta þar, byrjaði grunnt og færði sig svo dýpra. Ákvað ég þá að færa mig og fór í Ófærustreng, kastaði þar ýmsum flugum en varð ekki var. Fór ég þá að Begsnös en þar er áin frekar róleg og byrjaði þar með Green Braham no 12. Byrjaði að kasta og færði mig eins og lög gera ráð fyrir jafnt og þétt  neðar, svo var gripið í fluguna hjá mér. Alltaf erfitt þetta augnablik og að sitja á sér, bregðast ekki strax við en svo þegar ég brást við þá fann ég nokkra þunga kippi og svo ekkert meir. Ég þrákastaði aftur á sama stað en hélt svo áfram en fékk ekki högg. Færði ég mig þá efst aftur og skipti um flugu, setti undir fluguna Nagla no 12 hnýtta á Spirit öngul en þeir eru aðeins gleiðari, jafnframt setti ég sökkenda hjá mér. Í þriðja kasti var gripið aftur hjá mér og aftur þetta krítíska augnablik og svo brást ég við honum, en nú virtist hann vera fastur, tók þétt en ekki of fast og tókumst við á í smá tíma þar til að ég landaði 5 punda laxi. Reyndi ég svo aftur en án árangurs. Þá sá ég félagana koma niður úr Kálfhagahylnum og komu þeir við hjá mér, höfðu þeir náð einum laxi sem einnig var 5 pund á Rauðan Fransis 1” túpu. Héldu þeir svo neðar en ég reyndi aðeins meira þarna. Færði ég mig svo niður í Fjósahvamm og Ytrihvamm en fékk ekki högg. Var nú dagur að kveldi kominn, nærðum okkur við Sigurgeir, fórum aðeins í pottinn og svo í koju.

Næsta dag fórum við Sigurgeir niður fyrir brú en þar hafði ég ekki veitt fyrr, Svanur var aftur á móti eitthvað að dóla sér fyrir ofan brú. Við fórum niður að Klapparhyl  og Kvíslamót en fengum ekki högg. Fórum við þá niður í Fitin og Ósatanga og fengum ekki högg þar heldur. Fórum við þá niður að Kóngsbakka og þar var búið að ryðja út í ánna svona görðum, einum fjórum ef ég man rétt. Við skiptum okkur á garðana og svo fljótlega setti Sigurgeir í fisk og svo annan en ég varð ekki var. Sigurgeir sagði mér að koma og prufa þar sem hann var og gerði ég það. Í fyrsta kasti var rifið í fluguna hjá mér og hafði ég varla tíma til að doka við, tókumst á í smá stund og landaði ég svo 5,5 punda laxi. Sigurgeir kastaði aftur og setti strax í fisk og svo renndi ég strax á hæla honum og flugan var varla búin að snerta vatnið þegar hann var á hjá mér, einnig 5 punda fiskur. Allir fiskarnir voru nokkurn veginn jafnþungir 5 – 5,5 pund. Við fengum ekki högg meir og var svo komið að hléi og okkar dagur búinn. En þarna komu 5 fiskar á land á um það bil klukkutíma allir á sama stað. Átti þar ekki við sú staðhaæfing að það eigi að hvíla staði eftir að fiski hafi verið landað. Fórum við þá uppeftir ánni og hafði Svanur sett í 1 fisk í Stuðlastrengjum, sem einnig var 5 pund.

Sjá hér

„Lifið lífinu lifandi“ og veiðandi !!!

Fyrsta ferð mín með Ármönnum
1.Júlí 2010

Í byrjun maí var auglýst ferð með Ármönnum inn á svæðið sunnan Tungnár í svokölluð Framvötn. Til að nefna einhver vötn þá eru þar meðal annars Frostastaðavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn, Herbjarnarfellsvatn og Dómadalsvatn. Ég fann fyrir spennu sem ég ákvað að fylgja, hafði oft fundið hana áður enn ekki gert neitt við, ýmist vegna anna eða kannski bara framtaksleysis sem maður nefndi yfirleitt einhverjum öðrum nöfnumSmile. Sem sagt þarna ákvað ég að hringja í Guðmund Hauk og skrá mig til leiks í fyrsta sinn með Ármönnum.
Leið og beið en ákveðið var að fara 11. júní – 13. júní.  Er nær dró eða 8 júní kom póstur til allra frá honum Guðmundi Hauki, um að hann hefði rennt inn í Landmannahelli tekið út húsið og farið svo í það að slétta vötnin, en þau voru víst eitthvað úfin undan vetri. Ég staðfesti mig en kunningi minn sem ég hafði vonast til að kæmi með mér komst ekki. Hafði reyndar ætlað mér að fara inn eftir á jeppa sem ég á og gista þá í skála en jeppinn var eitthvað að stríða mér þannig að ég fór þá á pallbíl sem ég á, með pallhýsi á og gisti í því.
Loks var komið að því að fara úr bænum inn á Landmannaafrétt, og lagði ég af stað um kl 18:00 þann 11 júní og kom við á leiðinni hjá foreldrum mínum Steina og Dísu sem voru í útilegu í Landsveitinni. Kom inn að Landmannahelli um kl 20:30 og byrjaði á því að stimpla mig inn hjá honum Skúla landverði, fá veiðileyfið og hitti ég þar þá bræður Ágúst og Pál frá Ármönnum. Ég spurði Skúla hvar hann teldi vænlegast að renna  og sagði hann Frostastaðavatn að sunnanverðu, í og við hraunið, það væri bílastæði SA megin við vatnið og rölt þaðan og staðfesti svo Ágúst það, hafði gert góða hluti þar árið áður. Nú ég fór að bílastæðinu gerði mig kláran og kom mér svo út að hrauni og fór að veiða. Reyndi hinar ýmsu flugur, Pheasant Tail, Peter Ross og Black Zulu svo eitthvað sé nefnt. Reyndi einnig púpurnar Killer bæði rauðan og svartan, Peter Ross, Mobuto Brown og Blóðorm ýmist með eða án kúluhaus. Reyndi  svo allar tegundir inndráttar allt frá að vera svo hægur að ekki réttist úr línunni þar sem hún hlykkjaðist eftir yfirborði vatnsins í svo hraðan að rauk úr lykkjunum. Allt kom fyrir ekki svo ég færði mig til í hrauninu á ýmsa árennilega staði að mér virtist en fékk ekki högg.  Veðrið var mjög gott hæg SV átt. En loks fékk ég högg á Mobuto Brown púpu með kúluhaus, flotlínu og níu feta löngum taum, svo um kl 01:10 fékk ég loks fisk, ágætis bleikju gott pund. Svo kom annar rétt um kl 02:00 aðeins stærri ef eitthvað var. Nú um kl 02:30 ákvað ég að hætta, rölti upp í bíl var orðinn einn við vatnið. Þar sem ég var með svefnaðstöðu á bakinu ákvað ég að fara inn í Laugar og skella mér í gott bað og hafa einn kaldan með eða tvoWink og var ég þar til um kl 05:00.
Fyrir hvað stendur Ármenn eiginlega, eru þeir kannski svona árrisulir og ef svo er, þá á ég kannski ekki heima í þeim félagsskap. Allavega þegar ég loks fór á stjá (var reyndar lengi að frameftir) þá stóðu Ármenn í öllum vötnum vel upp undir hendur og gott ef mér sýndist ekki allar stangir kengbognar. Á meðan var ég á rúntinum milli vatna í miklum hugarleik hvar ég skyldi bleyta færi. Nú ég hafði taugar til Blautvers sem er staðsett NA við Ljótapoll og ákvað að byrja þar. Þegar ég keyrði kantinn ofan við Ljótapoll sá ég menn við veiðar niðri við Pollinn og seildist í kíkinn og sá að þeir voru að róta upp fiski á beitu. Hugsaði ég mér gott til glóðarinnar það væri vonandi sama á teningnum í Blautaveri. Ég ók  þangað gerði mig kláran og fór niður að vatni. Nú veðrið var ekki eins og best var á kosið ASA 8 – 13 með rigningu og æsti hann sig töluvert og herti þá rigninguna með öðru hvoru. Ég byrjaði að kasta með vindinn í nefið og náði vart að koma út línu og varð ekki var.  Fetaði mig svo með bakkanum þar til að auðveldara var að koma út línu, kastaði og kastaði, fékk loks einn titt sem var ekki einu sinni 1 pundi. Kastaði  eitthvað lengur en varð ekki frekar var, hugsaði til veislunnar hjá þeim í Ljótapolli og ákvað að fara þangað, en var þá búinn að vera í Blautaveri í um það bil 1 ½  klukkutíma. Er ég kom loks niður í Ljótapoll þá voru þeir að taka saman. VEISLAN VAR BÚIN og ekkert um að vera lengur, fiskurinn syntur hjá. Þeir voru 4 og voru með um 70 fiska upp í 4 – 5 pund sýndist mér. Var ég samt þarna í 1 ½  tíma og var sama sagan þarna og í Blautaveri fékk einn smá titt og ekki meir. Reyndi ég hinar ýmsu flugur og einnig setti ég sökkenda á en allt kom fyrir ekki.  Það voru sömu kviðurnar en þarna niðri var engin ákveðin vindátt, vindurinn kom alls staðar frá. Ákvað ég að fara í Frostaðstaðavatn kom þar um klukkan 18:00 og var enn helvítis vindur. Fékk mér einn kaldan og fór svo bara að sofa, svaf til kl 21:00 og fékk mér að borða og var bara í rólegheitum, ákvað að bíða eftir fréttum kl 22:00 því vindur var enn töluverður. Ekkert sérstakt var í fréttum, ennþá verið að berjast við olíuleka í borholu BP við strendur USA.
Jæja ég fór að græja mig og rölti svo af stað suður að hrauni og hitti þar bræðurna Ágúst og Pál sem höfðu fengið eitthvað af fiski um daginn og var Ágúst að setja í hann á Killer. Mér leiðist að setja sömu flugu og einhver annar er með svo ég setti sömu litlu pödduna og ég var með kvöldið áður en ekkert gekk. Reyndi hinar ýmsu flugur en þegar ég setti undir Watson Fancy púpu með svörtum kúluhaus þá fóru að gerast ævintýri. Ég náði  8 fiskum þar til að ég ákvað að hætta og fara í pottinnSmile. Var þá einn eftir við vatnið og klukkan um 02:00. Þegar ég var að labba í bílinn datt vindurinn eiginlega alveg niður komið var hið besta veður sem ég ákvað að nota inn í Landmannalaugum. Það er yndislegt líf veiða og fara í pottinn á víxl, hvað er hægt að hugsa sér það betraWink.  Jæja nú var kominn sunnudagur og ég ákvað að kíkja í Ljótapoll en ekki var neinn árangur svo ég ákvað að hætta bara og þegar ég var  að dóla mér af stað þá hitti ég, ja hverja haldið þið, en ekki þá bræður Ágúst og Pál. Var ég kominn á þá skoðun að það væru ekki fleiri Ármenn þarna, en ég og Ágúst, því ef ég man rétt þá er Páll sennilega ekki í Ármönnum. Páll er víst í Ármönnum.

En hvað um það, þarna inn á Landmannaafrétt átti ég frábæra helgi og vil ég þakka Ármönnum kærlega fyrir mig . Sjá myndir hér.
Kær kveðja Hjörtur og JAKINN.is  Ármaður númer 573.

Chevy sé oss næstur!!!!!!!!!!
1.Nóvember 2009

Hver var Chevrolet ?

Eitt frægasta nafn í bílasögunni "Chevrolet" kom frá manni sem hét Louis Chevrolet.

Louis Chevrolet varð aldrei ríkur á hæfni sinni, færni og reynslu en nafn hans er orðið ódauðlegur partur af sögunni.

Louis fæddist á jóladag 1878 í La Chaux-de-Fonds, í Sviss, hann var sonur úrasmíðameistara. Louis sýndi strax á ungum aldri mikla tæknilega hæfileika en hann þótti ekki sérlega góður að liggja yfir skólabókum eða sinna námi.

Louis Chevrolet byrjaði starfsferil sinn sem reiðhjóla viðgerðamaður og fljótlega fór þessi kröftugi 1.83 stóri maður að keppa í hjólreiðum. Hann vann 28 hjólakeppnir á sínum fyrstu 3 árum í reiðhjólakeppnum og hann hélt jafnframt áfram að smíða reiðhjól þar til hann uppgötvaði bíla. Þá varð Chevrolet bifvélavirki í hinum upprennandi Franska bíla iðnaði. Hann skipti oft um starf og jók við þekkingu sína en flutti síðan til Montreal árið 1900.

Chevrolet starfaði þar sem bílstjóri í 6 mánuði þar til hann flutti sig um set til New York. Smá saman gat hann sér góðan orðstír sem góður bifvélavirki og keppnis ökumaður.

Frá New York flutti hann sig um set til Flint Michigan þar sem hann hóf að aka sem keppnis ökumaður fyrir W.C. Durant stofnanda General Motors. Hann ók Buick í fyrstu Indianapolis 500 keppninni sem haldin var en brotinn kambás olli því að hann féll úr keppni. Síðan réði Durant hann til að hanna bíl drauma sinna. Chevrolet var ráðinn sem verkfræði ráðgjafi en hann var ekki yfirmaður í Chevrolet fyrirtækinu.

Þegar fyrsti Chevrolettinn sem hét Classic Six byrjaði í framleiðslu í 1912 þá voru 275 bílaframleiðendur í Bandaríkjunum! Fyrsti Lettinn var hugsaður sem bíll ríka mannsins og var ekki seldur í stórum stíl enda kostaði hann á þeim tíma $ 2150.-

Durant vildi byrja að framleiða bíla í fjöldaframleiðslu til að höfða til fjöldans en Louis Chevrolet var ekki sammála og vildi einungis láta tengja nafn sitt við stóra tilkomumikla og góða bíla.
Það er athyglisvert með tilliti til þróunar nú á tímum á notkun á vörumerki "Chevrolet" þar sem merkið er límt á miður merkileg faratæki til að selja sem mest! Farartæki eins og Daewoo og Opel frá Brasilíu o.s.frv. Louis Chevrolet er sjálfsagt búinn að snúa sér við mörgum sinnum í gröfinni í hvert skipti sem einhverjum markaðsfræðingnum dettur sú "snilldar" hugmynd í hug að líma Chevrolet logóið á einhverjar óseljanlegar druslur til að koma þeim út.

En vegna ágreinings Durant og Chevrolet þá seldi Chevrolet sig út úr fyrirtækinu í október 1913 einungis um ári eftir að byrjað hafði verið að framleiða fyrsta bílinn þar. Nafnið var orðið þekkt vörumerki og það átti W.C. Durant. Hefði Louis haldið áfram í fyrirtækinu hefði hann og allir hans eftirkomendur orðið marg milljónerar.

Durant saknaði hans ekki. Hann hataði manninn en elskaði nafnið. GM sameinaðist síðan Chevrolet Motors undir handleiðslu Durant.

Án þess að geta notað nafn sitt á fyrirtæki þá stofnaði Chevrolet nýtt fyrirtæki að nafni Frontenac motor corp til að smíða nýjan og framúrstefnulegan kappastursbíl.

Síðar réði hann sig sem aðstoðarforstjóra og yfir tæknifræðing hjá nýju fyrirtæki sem hét American Motors Corporation (AMC).

Árið 1929 hætti Louis í bílabransanum og stofnaði Chevrolet Brothers Aircraft Company saman með bróður sínum Arthur.

Árið 1934 setti General Motors manninn sem hafði gefið nafn sitt til best selda bíls þeirra hann aftur á launaskrá en vegna veikinda þá flutti Louis ásamt konu sinni til Florida. Louis Chevrolet dó síðan 6. júní 1941 þá 63 ára að aldri.

Hann var borinn til grafar í Indianapolis sem var sena hans stærstu sigra í ökukeppnum.

„Lifið lífinu lifandi“ á Chevrolet !!!!!

Minnig Hákons Aðalsteinssonar.
30.Apríl 2009

Hákon Aðalsteinsson frá Vaðbrekku í Fljótsdal.

Það er manni alltaf erfitt að hugsa til þess þegar góðir menn yfirgefa þessa veraldlegu veröld.

Ég kynntist Hákoni ekki mikið en aðeins þó, hann leiðsagði mér og vini mínum honum Sigurgeir eitt haustið á hreindýraveiðum. Áttum við eina Hreinkú og jafnframt höfðum við hug á því að taka einnig kálfinn líka. Mættum við seinnipart dags á hlaðið að Húsum í Fljótsdal, en við vorum á pallbíl með gistihúsi á pallinum og gistum við því á hlaðinu hjá Hákoni. En eins og fyrr segir komum við þarna seinnipart dags, kynntum okkur fórum svo yfir áætlun næsta dags og strax við fyrstu kynni fann maður vel hvern mann Hákon hafði að geyma. Hann var strax svo viðkunnalegur að það var eins og maður hafði þekkt Hákon alla tíð. Var ákveðið miðað við hvar hjarðirnar hefðu verið um daginn að nóg væri að fara upp 08:30 daginn eftir sem og varð. Þegar upp á heiði var komið sáum við fljótlega hjörð en í henni voru menn og fylgdumst við aðeins með en snerum frá að hyggja að annari hjörð. Var alveg ljóst að þarna þekkti Hákon hvern stein og hverja þúfu eins virtist hann fullkomlega gera sér grein fyrir hegðun dýranna og gera sér einnig grein fyrir hvar þau væru miðað við veðurfar, eins hvar þau kæmu niður af einhverju landssvæði.

En á meðan leit okkar stóð runnu upp úr Hákoni hver sagan á fætur annari og gamanmálið. En svo sáum við hjörð og leiðbeindi Hákon okkur með hvernig við ættum að nálgast hjörðina og koma okkur í færi og gekk það eftir. Sátum þar í rólegheitum, Hákon var að segja okkur frá sjón og lyktarskini dýranna. Komum okkur svo saman um hvaða kýr ég ætti að skjóta en þetta var í fyrsta skiptið sem við vorum á Hreindýraveiðum báðir, kúin sem stóð næst okkur var í 125 metra færi. Skaut ég kúna og kipptist hjörðin þá til en ekki meira en svona 10 metra, svo þegar Sigurgeir var að setja sig í stellingar til að skjóta kálf kýrinnar þá ber að menn úr vindátt að hjörðinni og fældist hún þá burt.

Gerðum þá að kúnni og komum henni í bílinn og var tekin sú ákvörðun að koma henni heim flá hana og koma henni í kæli sem við og gerðum.

Var Sigrún kona Hákons nýbúin að baka dýrindis lummur sem Hákon bauð okkur að snæða með sér og einnig Hjálmari í hlað og hans mönnum sem komu og fengu að nota aðstöðuna hjá Hákoni. Eftir að við höfðum notið veitinganna var farið upp á heiði aftur og hafði Hákon margsinnis orð á því að svona ætti að stunda hreindýraveiðar. Fara upp fyrir hádegi skjóta dýr, fara svo heim fá sér lummur, fara svo aftur upp og taka annað dýr í þessu tilfelli kálf kýrinnar, þetta væri aldeilis frábært! En þannig háttar til að ef kýr er skotinn þá fælist yfirleitt hjörðin og kálfurinn með en svo uppgötvar hann að mamma sé ekki í hjörðinni lengur og fer þá að leita hennar á sama stað og hún var skotinn. Nú við fórum þar sem kúin var skotinn að hyggja eftir henni en sáum engan kálfinn né hjörð og var þá Hákon í sambandi við eftirlits menn að kanna hvar dýrin væru. Sögðu þeir dýr vera eitthvað norðar og bað Hákon um hvort þeir myndu reyna að koma hjörðinni suður aftur þegar þeir væru búnir og játtu þeir því, jafnframt sagði Hákon að ef þeir kæmu hjörðinni suður á bóginn þá myndi hún koma yfir einhvern tiltekinn ás sem hann nefndi nú einhverju nafni. En þarna undi hann sér greinilega fram í fingurgóma og eins og fyrr segir þekkti hvern stein og hverja þúfu. Nema við erum að bíða hvort dýrin koma suður yfir ásinn þegar Sigurgeir segir allt í einu við mig Hjörtur lánaðu mér kíkinn og segir svo þþaaðð eerr KÁLFUR þarna, þá var kálfur á reiki þarna töluvert langt frá okkur. En á svipuðum slóðum og kúin hafði verið skotinn. Nú við komum okkur í færi og skaut svo Sigurgeir kálfinn og var þá dagurinn fullkomnaður. En þá var eftir að koma honum í bílinn og voru um það bil 700 metrar í bílinn og enginn slóði að dýrinu, setti Sigurgeir þá kálfinn á axlirnar og við gengum að bílnum. Þegar við komum að bílnum þá tók Hákon innan úr dýrinu og fórum svo niður að bæ fláðum það og komum í kæli. Fórum svo inn til Hákons gerðum upp leiðsögn, kæligeymslu og fláningu. Meðan við sátum kemur bókasölumaðurinn og tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson að selja bækur og var boðið í stofu og kaffisopa. Fór nokkuð vel á milli þeirra og voru að rifja upp þegar Herbert kom ári áður í sömu erindagjörðum.

Svo eftir uppgjörið fórum við út á hlað og sýndi Hákon okkur gamlan GMC sem hann átti út á hlaði, setti hann meira að segja í gang og keyrði fram og aftur á hlaðinu.

Myndir hér

Að fá að vera þess aðnjótandi að fá að kynnast Hákoni þó að það væri bara rúmlega dagur þá var Hákon Aðalsteinsson algjörlega einn af stórperlum Íslands.

Ég votta aðstandendum Aðalsteins mína dýpstu samúð.

 

Leitin að Drullusokknum
6.Apríl 2009

Fórum í sumarbústað að Flúðum núna um dagana, nánar tekið við Heiðarbyggð. Veðrið var svo gott alla helgina að það var algjör unun að vera úti við hvort sem var í heita pottinum eða bara vera úti, það var reyndar svolítið kalt en stillan var algjör og þegar maður er búinn að klæða sig vel þá er það ekkert mál. Nú ég tók líka með mér flugustöng nýjan fjarka frá Tomas and Tomas keyptan hjá honum Ingólfi í Vesturröst til að æfa mig með. Því fluguveiðin er þannig að maður er alldrei fullnuma endalaust hægt að bæta við þar, einnnig að þó að maður sé búinn að öðlast ákveðna færni með eitthvað þá er nauðsinlegt að skerpa á þeirri færni. Því oftar sem það er gert bara betra. Nú ég verð að fara fleiri orðum um veðrið og dýrðina!! Það er svo gaman og yndislegt að vera úti í svona góðu veðri t.d á föstudagskvöldið var svo heiðskírt að manni verkjaði, Tunglið stutt í fyllingu, Venus, Karlsvagnin og Norðurstjarnan voru þarna í allri sinni dýrð ásamt öllum hinum stjörnunm. Svo um hálf tíu á laugardagsmorgninum þá var maður aftur kominn í pottinn, var stillan enn og dagsbirtan ekki orðin öll og fegurðin frábær, fjallasýnin og eitt og eitt ljós frá bæum eða sumarbústöðum þvílík unun.

Nema svo fannst Láru seitla eithvað hægt úr sturtunni svo við Olli vorum sendir út á örkina í leit að Drullusokk. Ekkert mál sögðum við, á Flúðum væri örugglega fullt af Drullusokkum og brunuðum við af stað, nú undrunin var töluverð, það var enginn Drullusokkur á Flúðum. Nú þá var brunað á Selfoss þar hlytu að vera fullt af Drullusokkum sem kom á daginn þar var fullt af þeim ;-) Fengum við einnig tvær hespur af mórauðum lopa fyrir Guggu svo að hún gæti prjónað á mig ermahlífar, þá er dautt það vandamál að manni sé kalt sökum þess að það sé bert á milli peisu og vettlings. Var síðan haldið í bústaðinn á ný fengið sé te sopa og svo var farið í fluguköstin enn í sömu dýrðarinnar veðursældinni. Svo um kvöldmatarleitið var farið að huga að matseld sem átti að vera töluvert grand, Humar í forrétt og Hreindýr í aðalrétt og svo var einnig Skyrterta í eftirrétt og svo Mohito á eftir. Reyndum að ryfja upp hvenær við eignuðumst humarinn við Lára en tókst ekki enda var komið aðeins bragð í hann ekki vont reyndar en ekki rétta bragðið. Svo þegar Hreindýrið var dregið fram reyndist það vera lifur, sem sagt Hreindýralifur. Nú voru góð ráð dýr(Hreindýr) farið var í það að hringja í vin og einnig skoðað það sem til var í ískápnum og að endanum var lifrin skorin í sneiðar vellt upp úr hveiti, salt og pipar og svo skellt smá á sjóðheita pönnu, kjötinu rétt lokað svo gerð sósa með miklum lauk og kriddi, lifrin svo sett í sósuna. Hreindýralifrin bragðaðist nú aveg ágætlega bara nokkuð góð. Svo kom Spaugstofan og svo farið í heita pottinn aftur, en nú voru kominn ský á loft og smá vindur en gott veður samt. Svo á sunnudeginum var byrjað á pottinum og svo fluguköst, síðan voru mátaðar þessar fínu ermahlífar sem Gugga var búinn að prjóna. Svo potturinn enn og aftur áður en brunað var í bæinn.

Heklugos
22.Febrúar 2009

Góðan daginn,

þegar Hekla gaus síðast eða um veturinn árið 2000, þá fórum við vinirnir að skoða herlegheitin og fannst mér mikið til koma. Þarna var rétt um tveggja metra há hrauntunga sem skreið fram á mjög litlum hraða. Eins og fyrr segir þá var þetta mjög áhugavert og tilkomumikið eins og alltaf þegar náttúran á í hlut. Þess vegna bíður maður bara mjög spenntur eftir gosi, hvenær sem það nú verður.

Hekla getur gosið hvenær sem er

Þegar við vorum á leið heim frá síðasta gosi þá áttu menn í erfiðleikum í Þrengslunum, voru að festa bíla sína og skyggnið slæmt. Við tókum sénsinn á Hellisheiðinni þó hún væri lokuð, enda á góðum jeppum og læddum okkur fram hjá búkkum og skiltum sem lokuðu veginum. Eins og í Þrengslunum þá var skyggnið blint á heiðinni og verra en í Þrengslunum og heiðin sennilega lokuð þess vegna. En við lögðum í hann og miðaði lítið. Lögðum við í Kambana og rýndum við Svenni báðir út um framrúðuna í sortann í leit að stikum sem skiluðu sér þó ekki nema ein og ein í einu, vorum við svo lengi vel að bíða eftir síðustu beygjunni en fundum allt í einu fyrir skafli. Hafði þá skafið aðeins inn á veginn rétt inn á akreinina sem var lengst til hægri og höfðum við okkur ekki í gegn enda fullpumpað í öll dekk. Nú við fórum aðeins út að virða fyrir okkur skaflinn og hefðum við sloppið við hann ef við hefðum verið á vinstri akrein. Þegar við vorum að skoða skaflinn sáum við skilti sem vísaði á sæluhús og vorum við þá komnir upp á heiðina, sem sagt síðasta beygjan fór alveg fram hjá okkur. Nú við héldum áfram för og ætluðum að taka eftir því þegar færi að halla undan í brekkunni fyrir ofan Skíðaskálann. Vissum við ekki af okkur fyrr en við sáum allt í einu ljós frá Skíðaskálanum rétt aftan við þvert og var þá sama sagan þar. Í svona blindu veit maður ekkert hvort maður er að keyra upp eða niður maður er alveg kolruglaður, og sannast þar enn og aftur hvers konar galdragripir þessi endurskinnsmerki eru. Nú svo vissum við ekki af okkur fyrr en við komum niður að Litlu Kaffistofunni sem var opin og var eitthvað af strönduðu fólki þar og fengum við þar fréttir af tugum bíla þvers og kruss í Þrengslunum. Voru þeir svo langt fram eftir degi að greiða úr þeirri flækju. Nú ferðin hjá okkur yfir Heiðina tók eitthvað um 5 tíma.

 

Flundra er flatfiskur af kolaætt
22.Febrúar 2009

Á síðu Veiðimálastofnunar við Keldnaholt eru margar fróðlegar upplýsingar um lífríkið í vatnasviðinu á og við Ísland. Einnig er Veiðimálastofnun nú að hefja rannsóknir á lífsháttum Flundrunar með hliðsjón af samkeppni um búsvæði við aðra fiskstofna t.d. lax.

Ég veiddi eitt sinn Flundru í Andakílsá fór með hana heim, flakaði og steikti og smakkaðist hún barasta mjög vel.

„Lifið lífinu lifandi“ og étum allar Flundrurnar !!

Eldri færslur
 
2008 © Hjörtur Sævar Steinason | Keyrt á Oliver vefumsjón