JAKINN.IS
Ávallt ískaldur!
- Fréttir
- Af hverju telja Íslendingar aðfangadagskvöld helgast en ekki jóladaginn?
Af hverju telja Íslendingar aðfangadagskvöld helgast en ekki jóladaginn?
24.Desember 2009
Runninn er upp aðfangadagur jóla; jólahátíðin gengur senn í garð. En spyrja má: Hvers vegna er hátíðleikinn hvað mestur á Íslandi á aðfangadagskvöld, þegar hátíðarmatur er fram reiddur og gjafirnar opnaðar í faðmi fjölskyldunnar, þegar flestar aðrar þjóðir telja sjálfan jóladaginn helgastan allra daga?
Á Vísindavef Háskóla Íslands, svarar Einar Sigurbjörnsson, prófessor í guðfræði þessari spurningu, en Einar er bróðir Karls biskups Íslands og sonur dr. Sigurbjörns heitins Einarssonar biskups.
Gefum prófessor Einari orðið:
Fæðingarhátíð Jesú Krists, jólin, er haldin 25. desember. Undirbúningur hátíðahaldsins er aðventan eða jólafastan og lokadagur hennar, 24. desember, nefnist hjá okkur aðfangadagur jóla. Nafnið er gagnsætt. Þá skal undirbúningi lokið og aðföng öll komin til hátíðahaldsins. Helgin hefst síðan um miðjan aftan eða kl. 18. Þá er orðið heilagt og í hönd fer jólanóttin.
Í þessu fylgjum við Íslendingar fornum sið. Helgidaga- og hátíðahald kristinna manna studdist upprunalega við gyðinglegt tímatal, en hjá þeim hefst dagurinn við sólsetur.
Þetta kemur fram í sköpunarsögunni þar sem segir um hvern dag: „Það varð kveld og það varð morgunn ...“ Utan gyðinglegs landsvæðis var hins vegar ekki miðað við sólsetur heldur við miðaftan. Þetta er í fullu gildi hjá okkur um jólin. Um miðaftan 24. desember er orðið heilagt, jólin komin með aftansöngnum í kirkjunum, 25. desember runnin upp. Að loknum aftansöng hefst aðalveisla jólanna og eftir það eru pakkarnir opnaðir. Að fornu var aðalmessa jólanna um miðnættið eins og fram kemur í mörgum íslenskum þjóðsögum og hefur sá siður víða verið tekinn upp að nýju í þjóðkirkjunni okkar.
Okkar siðir eru skemmtilegir og styðjast við forna venju, en við þurfum jafnframt að gæta merkingar þeirra og láta jólahaldið sjálft ekki hefjast of snemma. Jóladagurinn er 25. desember. Við teljum hann renna upp kl. 18 þann 24. Sama gildir um aðra hátíðisdaga kirkjuársins og raunar sunnudagana líka. Hátíðin hefst um miðjan aftan daginn áður. Áður fyrr — og sums staðar enn meðal nágrannaþjóðanna — er kirkjuklukkum hringt um miðaftan á laugardögum og aðfangadögum hátíðanna til að minna á upphaf helginnar. Í fornum reglum sagði að hátíðirnar jól, páska og hvítasunnu ætti að hringja inn milli kl. 17 og 18 á aðfangadag þeirra. Ég held að þessi venja hafi lagst niður víðast hvar á landinu, en mér er í barnsminni þegar kirkjuklukkum í Reykjavík var hringt í klukkutíma á aðfangadögum hátíða.
„Lifið lífinu lifandi“ Sérstaklega á Jólunum !!!
[ Til baka ]