Skip to: Site menu | Main content

 

  • Fréttir
  • Ýmis fróðleikur um vöð á Tungnaá.

Ýmis fróðleikur um vöð á Tungnaá.
16.Nóvember 2009

Í ágúst 1795 fór Sveinn Pálsson ásamt fleirum í rannsóknarferð til Veiðivatna .Á  leiðinni inn úr fóru þeir yfir Tungnaá á Tangavaði sem var rétt fyrir ofan Ármótafossinn. Þar var hólmi í ánni fagurrauður af eyrarrós. Gistu þeir síðan í Hestatorfu og þar voru margar hestagötur sem stefna á Tangavað sem bendir til mikillar umferðar þar yfir. Næsta dag héldu þeir áleiðis inn með Köldukvísl og yfir á Tryppavaði eftir lýsingunni þó að það væri ekki nafngreint. Á heimleiðinni fóru Sveinn og félagar yfir Tungnaá á Kvíslarvaði sem var rétt neðan við fallegan foss í ánni. Kvíslarvað var mikið notað áður en Bjallavað fannst á síðasta áratug nítjándu aldar og er núna líklega komið undir Krókslónið (Sigöldulónið). Bjallavað fannst eins og áður sagði á síðasta áratug nítjándu aldar og var notað af bændum af Landi og Holtum sem stunduðu silungsveiðar í Veiðivötnum og þar ráku þeir féð yfir sem smalaðist á Veiðivatnasvæðinu. Það gat stundum verið slarksamt því að  sérstaklega lömbin vildu gjarnan snúa við til sama lands og voru þau þá ýmist reidd yfir eða bundin saman og dregin yfir. Áin er þarna um 200 metra breið.. Tvisvar var áin alófær og var féð þá rekið niður á Þóristungur og einhvern vegin ferjað þar með fé þeirra sem þar smöluðu. Gömlu bátaskýlin standa ennþá í góðu standi ofan til við Bjallavað og skátarnir sem tóku þátt í jeppaferðinni 2006 sváfu í skýlinu á syðri árbakkanum eina nótt. Eftir að Hófsvað fannst 1950 mun endanlega hafa verið hætt að nota Bjallavað. Mér er sagt að fyrir 1950 hafi menn flutt jeppa á  fleka yfir Tungnaá við Bjallavað og komist upp á Bjallana, en ófært var niður innanmegin nema á hestum. Bjallavað varð því aldrei raunhæf lausn á bílaöld, en botninn er ekki eins grýttur og á Hófsvaðinu Sveinn Pálsson talar um vað með klapparbotni móts við Kirkjufell. Austurkróksvað hef ég heyrt talað um og einhversstaðar nálægt Kýlingum og þar fór Ólafur í Austvaðsholti með ferðamenn og var það afar slæmt vegna sandbleytu. Áður fyrr fóru Skaftfellingar yfir á svokölluðu Snjóölduvaði þegar þeir fóru til veiða í Veiðivötnum en það er löngu aflagt enda sökkvandi sandbleyta. Séð hef ég getið um Ballarvað kennt við Tröllið þar austur af en þar var líka sandbleyta og kannski er það sama vaðið. Á bílaöld eða nánar tiltekið 1932, var fyrst farið með Ford 1927 módel yfir á bát í Haldinu til undirbúnings fyrir ferðina yfir Sprengisand árið eftir, en þar voru á ferð Sigurður Jónsson frá Laug og fleiri. Guðmundur Jónasson komst síðan á Kanadískum Ford trukk sínum “Vatnaljót“ yfir nokkru ofar en Tangavað árið 1949 en Tangavaðið fannst síðan aftur nokkru síðar og var oft ekið meðal annars af Sveini í Lækjartúni og fleirum Áshreppingum í sambandi við smalamennskur. Halldór Eyjólfsson á Rauðalæk stundaði nokkur sumur eftir 1960 að ferja jeppa yfir á Tangavaði á Reo Studebaker 10 hjóla trukk. Á þessum árum ferjuðu nokkrir menn frá Selfossi 3 jeppa  á tunnufleka yfir ána einhversstaðar á þessu svæði. Svo kemur kláfurinn innan við Hald sumarið 1964 og hann tók bíla allt að 3,5 tonn og eftir það jókst umferð jeppa mikið yfir hálendið. Sigurjón Rist og hans menn hjá Vatnamælingum hlóðu árið 1960 mikinn stöpul utan um vatnsmæli við Haldið og var í haust settur þar upp minnisvarði um Sigurjón, en hann og fleiri syntu yfir ána í Haldinu um sumarið. Hófsvað  fundu svo Guðmundur Jónasson og fleiri fjallagarpar í ágúst 1950 og varð það aðalvaðið fyrir stærri bíla þangað til brúin kom við Sigöldu haustið1968. Þegar Suðurlína Landsvirkjunar var byggð 1982 eða 1983 var fundið vað fyrir vinnuvélar og bíla austur af Ljótapolli. Var farið norður eftir aurunum frá mynni Jökulgils kvíslarinnar og síðan yfir Tungnaá. 26 möstur eru innan við ána svo að það var til bóta að geta farið þarna beint yfir. Á þessu vaði fóru Pálmi á Læk og Bjarni í Akbraut  á jeppum  til að smala  á Veiðivatnasvæðinu í annari leit haustið 1983. Árið eftir var þarna dýpi 1.80 metrar og alófært. Á þessum slóðum fóru 4x4 félagarnir í 44 tommu ferðinni 30. sept. 2006 og var góður botn en nokkuð djúpt. Heyrt hef ég að Villys jeppi á stórum dekkjum hafi einhverntíma farið yfir ána austur af Tröllinu en ekki langað að fara til baka en þetta er óstaðfest. Ekki er vitað hvenær bátur kom við Tungnaá en 1772 þegar Fjalla Eyvindur og Halla voru handsömuð var þar bátur. Vegagerðin setti svo bát við Bjallavað 1934 og annan 1936. Eftir að  Sultartangastíflan var byggð er Tangavaðið á þuru sunnan stíflunnar og væri fróðlegt að skoða farveginn. Þó að  brýr kæmu á ána hefur alltaf verið nokkuð um að menn fari á bílum yfir á Hófsvaði sér til gamans. 9 október 2004 tók ég þátt í leiðangri sem Jón Hermannsson skipulagði. Þá keyrði ég þar yfir á mínum gamla Weapon sem var akkúrat þann dag 51 árs. Það sá Jón á plötu í mælaborðinu. Bjarnhéðinn Guðjónsson á Hellu var líka með á sínum Weapon, sem er 1942 árgerð. Hann þekkti vaðið vel því að hann fór margar ferðir með menn til Veiðivatna á sínum tíma. Svo voru 7 aðrir yngri fjallabílar með í ferðinni auk þess sem Unimog Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu var með til halds og trausts. Ferðin gekk vel og er bara gaman að viðhalda þekkingu á þessum gömlu vöðum. Þessi ferð var ekki síst farin vegna áhuga afkomenda Sigurðar frá Laug, sem fyrstur fór á bíl yfir hálendið, en þrír afkomendur hans tóku þátt í ferðinni. Hófsvað er í 3 aðalálum og 2 litlum og samtals að   hólmunum meðtöldum 570 metrar á breidd. 30. sept. 2006 gerðu nokkrir félagar í Ferðaklúbbnum 4x4 leiðangur til að leita að Bjallavaði og óku þar yfir á nokkrum 44 tommu jeppum og stórum framdrifstraktor. Gekk það mjög vel og var farið bæði á rétta vaðinu og víðar á svæðinu. Síðan var farið að Hófsvaði og vaðið keyrt fram og til baka. Ég held að niðurstaðan hafi verið að gamla vaðið sé það besta en fært er svona bílum mun víðar. Þá er eftir að geta um vöð nálægt Jökulheimum. Á þeim slóðum er stundum hægt að fara yfir á öflugum bílum haust og vor þegar lítið er í ánni en þar er vandfarið og sandbleytur. Þetta er svona það helsta sem ég man eftir um vöð og fl. á Tungnaá .
Olgeir Engilbertsson  Nefsholti.

„Lifið lífinu lifandi“ Og Vaðandi !!!

Eldri fréttir
 
2008 © Hjörtur Sævar Steinason | Keyrt á Oliver vefumsjón