Skip to: Site menu | Main content

 

Fyrsta ferð mín með Ármönnum
1.Júlí 2010

Í byrjun maí var auglýst ferð með Ármönnum inn á svæðið sunnan Tungnár í svokölluð Framvötn. Til að nefna einhver vötn þá eru þar meðal annars Frostastaðavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn, Herbjarnarfellsvatn og Dómadalsvatn. Ég fann fyrir spennu sem ég ákvað að fylgja, hafði oft fundið hana áður enn ekki gert neitt við, ýmist vegna anna eða kannski bara framtaksleysis sem maður nefndi yfirleitt einhverjum öðrum nöfnumSmile. Sem sagt þarna ákvað ég að hringja í Guðmund Hauk og skrá mig til leiks í fyrsta sinn með Ármönnum.
Leið og beið en ákveðið var að fara 11. júní – 13. júní.  Er nær dró eða 8 júní kom póstur til allra frá honum Guðmundi Hauki, um að hann hefði rennt inn í Landmannahelli tekið út húsið og farið svo í það að slétta vötnin, en þau voru víst eitthvað úfin undan vetri. Ég staðfesti mig en kunningi minn sem ég hafði vonast til að kæmi með mér komst ekki. Hafði reyndar ætlað mér að fara inn eftir á jeppa sem ég á og gista þá í skála en jeppinn var eitthvað að stríða mér þannig að ég fór þá á pallbíl sem ég á, með pallhýsi á og gisti í því.
Loks var komið að því að fara úr bænum inn á Landmannaafrétt, og lagði ég af stað um kl 18:00 þann 11 júní og kom við á leiðinni hjá foreldrum mínum Steina og Dísu sem voru í útilegu í Landsveitinni. Kom inn að Landmannahelli um kl 20:30 og byrjaði á því að stimpla mig inn hjá honum Skúla landverði, fá veiðileyfið og hitti ég þar þá bræður Ágúst og Pál frá Ármönnum. Ég spurði Skúla hvar hann teldi vænlegast að renna  og sagði hann Frostastaðavatn að sunnanverðu, í og við hraunið, það væri bílastæði SA megin við vatnið og rölt þaðan og staðfesti svo Ágúst það, hafði gert góða hluti þar árið áður. Nú ég fór að bílastæðinu gerði mig kláran og kom mér svo út að hrauni og fór að veiða. Reyndi hinar ýmsu flugur, Pheasant Tail, Peter Ross og Black Zulu svo eitthvað sé nefnt. Reyndi einnig púpurnar Killer bæði rauðan og svartan, Peter Ross, Mobuto Brown og Blóðorm ýmist með eða án kúluhaus. Reyndi  svo allar tegundir inndráttar allt frá að vera svo hægur að ekki réttist úr línunni þar sem hún hlykkjaðist eftir yfirborði vatnsins í svo hraðan að rauk úr lykkjunum. Allt kom fyrir ekki svo ég færði mig til í hrauninu á ýmsa árennilega staði að mér virtist en fékk ekki högg.  Veðrið var mjög gott hæg SV átt. En loks fékk ég högg á Mobuto Brown púpu með kúluhaus, flotlínu og níu feta löngum taum, svo um kl 01:10 fékk ég loks fisk, ágætis bleikju gott pund. Svo kom annar rétt um kl 02:00 aðeins stærri ef eitthvað var. Nú um kl 02:30 ákvað ég að hætta, rölti upp í bíl var orðinn einn við vatnið. Þar sem ég var með svefnaðstöðu á bakinu ákvað ég að fara inn í Laugar og skella mér í gott bað og hafa einn kaldan með eða tvoWink og var ég þar til um kl 05:00.
Fyrir hvað stendur Ármenn eiginlega, eru þeir kannski svona árrisulir og ef svo er, þá á ég kannski ekki heima í þeim félagsskap. Allavega þegar ég loks fór á stjá (var reyndar lengi að frameftir) þá stóðu Ármenn í öllum vötnum vel upp undir hendur og gott ef mér sýndist ekki allar stangir kengbognar. Á meðan var ég á rúntinum milli vatna í miklum hugarleik hvar ég skyldi bleyta færi. Nú ég hafði taugar til Blautvers sem er staðsett NA við Ljótapoll og ákvað að byrja þar. Þegar ég keyrði kantinn ofan við Ljótapoll sá ég menn við veiðar niðri við Pollinn og seildist í kíkinn og sá að þeir voru að róta upp fiski á beitu. Hugsaði ég mér gott til glóðarinnar það væri vonandi sama á teningnum í Blautaveri. Ég ók  þangað gerði mig kláran og fór niður að vatni. Nú veðrið var ekki eins og best var á kosið ASA 8 – 13 með rigningu og æsti hann sig töluvert og herti þá rigninguna með öðru hvoru. Ég byrjaði að kasta með vindinn í nefið og náði vart að koma út línu og varð ekki var.  Fetaði mig svo með bakkanum þar til að auðveldara var að koma út línu, kastaði og kastaði, fékk loks einn titt sem var ekki einu sinni 1 pundi. Kastaði  eitthvað lengur en varð ekki frekar var, hugsaði til veislunnar hjá þeim í Ljótapolli og ákvað að fara þangað, en var þá búinn að vera í Blautaveri í um það bil 1 ½  klukkutíma. Er ég kom loks niður í Ljótapoll þá voru þeir að taka saman. VEISLAN VAR BÚIN og ekkert um að vera lengur, fiskurinn syntur hjá. Þeir voru 4 og voru með um 70 fiska upp í 4 – 5 pund sýndist mér. Var ég samt þarna í 1 ½  tíma og var sama sagan þarna og í Blautaveri fékk einn smá titt og ekki meir. Reyndi ég hinar ýmsu flugur og einnig setti ég sökkenda á en allt kom fyrir ekki.  Það voru sömu kviðurnar en þarna niðri var engin ákveðin vindátt, vindurinn kom alls staðar frá. Ákvað ég að fara í Frostaðstaðavatn kom þar um klukkan 18:00 og var enn helvítis vindur. Fékk mér einn kaldan og fór svo bara að sofa, svaf til kl 21:00 og fékk mér að borða og var bara í rólegheitum, ákvað að bíða eftir fréttum kl 22:00 því vindur var enn töluverður. Ekkert sérstakt var í fréttum, ennþá verið að berjast við olíuleka í borholu BP við strendur USA.
Jæja ég fór að græja mig og rölti svo af stað suður að hrauni og hitti þar bræðurna Ágúst og Pál sem höfðu fengið eitthvað af fiski um daginn og var Ágúst að setja í hann á Killer. Mér leiðist að setja sömu flugu og einhver annar er með svo ég setti sömu litlu pödduna og ég var með kvöldið áður en ekkert gekk. Reyndi hinar ýmsu flugur en þegar ég setti undir Watson Fancy púpu með svörtum kúluhaus þá fóru að gerast ævintýri. Ég náði  8 fiskum þar til að ég ákvað að hætta og fara í pottinnSmile. Var þá einn eftir við vatnið og klukkan um 02:00. Þegar ég var að labba í bílinn datt vindurinn eiginlega alveg niður komið var hið besta veður sem ég ákvað að nota inn í Landmannalaugum. Það er yndislegt líf veiða og fara í pottinn á víxl, hvað er hægt að hugsa sér það betraWink.  Jæja nú var kominn sunnudagur og ég ákvað að kíkja í Ljótapoll en ekki var neinn árangur svo ég ákvað að hætta bara og þegar ég var  að dóla mér af stað þá hitti ég, ja hverja haldið þið, en ekki þá bræður Ágúst og Pál. Var ég kominn á þá skoðun að það væru ekki fleiri Ármenn þarna, en ég og Ágúst, því ef ég man rétt þá er Páll sennilega ekki í Ármönnum. Páll er víst í Ármönnum.

En hvað um það, þarna inn á Landmannaafrétt átti ég frábæra helgi og vil ég þakka Ármönnum kærlega fyrir mig . Sjá myndir hér.
Kær kveðja Hjörtur og JAKINN.is  Ármaður númer 573.

 
Nafn:*
Netfang:
Skilaboð:*
Kóði: ?
 
2008 © Hjörtur Sævar Steinason | Keyrt á Oliver vefumsjón