Skip to: Site menu | Main content

 

JEPPI !!!
28.Nóvember 2011

Jeppi
nafnorð, karlkyn

Notkun og merking

Í Íslenskri orðabók (2002) eru gefnar upp tvær merkingar nafnorðsins jeppi og er sú fyrri skýrð svo:

Sterkbyggður bíll með hátt undir öxlum, með drifi á öllum hjólum og millikassa til að breyta drifstyrknum, upphaflega gerður til aksturs á vegleysum eða vondum vegum

Reyndar er líklegt að ýmsir málnotendur noti orðið á eitthvað frjálslegri hátt en hér er boðað og skeyti t.d. lítt um millikassa og drifstyrk – en þeir sem handgengnastir eru jeppunum telja þetta trúlega alvörumál.

Seinni merkingin er merkt sem slangur og tilfærð samheitin gaur og mannkerti. Nokkur dæmi um slíka notkun orðsins er að finna í talmálssafni OH, og er þess þá stundum getið að það sé helst haft um menn sem láta mikið á sér bera eða eru uppivöðslusamir.

Loks má nefna að Orðabók um slangur (Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson 1982) gefur einnig upp þriðju merkinguna: nýliði á togara.

Saga og uppruni

Venjulega er haft fyrir satt að orðið jeppi sé dregið af enska heitinu jeep sem haft var um létta og sterkbyggða torfærubíla bandaríska hersins í seinni heimsstyrjöld. Þessi farartæki bárust fyrst hingað til lands með hernámsliðinu og eftir stríðið, þegar farið var að framleiða bílana fyrir almennan markað, urðu þeir vinsælir á Íslandi, einkum til sveita. Í upphafi voru það víst einungis arftakar bandaríska herbílsins (Willysjeppar) sem báru jeppanafnið en þegar fleiri tegundir sambærilegra farartækja fóru að flytjast til landsins voru þeir einnig nefndir jeppar. Elsta dæmi um orðið jeppi í merkingunni 'bíll' sem Orðabókinni er kunnugt um er úr leikritinu Leynimelur 13 eftir Emil Thoroddsen og Harald Á Sigurðsson en það var frumsýnt árið 1943.

Það má kallast nokkuð sérkennilegt að íslenska heitið jeppi virðist dregið af rithætti enska orðsins jeep fremur en af framburði. Hefði framburðurinn ráðið (eins og t.d. í sjoppa, öðru tökuorði frá stríðsárunum) hefði mátt búast við að fyrirbærið væri kallað *díp(i), *síp(i) eða eitthvað þvíumlíkt. Þarna gæti skipt máli að fyrir var í landinu annar Jeppi, nefnilega Jeppi á Fjalli, titilpersóna í vinsælu leikriti Holbergs. Leikritið um Jeppa á Fjalli var fyrst sýnt hérlendis á seinni hluta 19. aldar og margsinnis eftir það svo að sá Jeppi var löngu orðinn þjóðkunnur á stríðsárunum. Raunar má telja líklegt að seinni merkingin sem Íslensk orðabók tilfærir (gaur, mannkerti) eigi rætur að rekja til Jeppa á Fjalli. Svo hefur mönnum e.t.v. ekki þótt illa til fundið að sveigja enska heitið á fyrsta vélknúna farartækinu sem var fært á fjöll hérlendis í átt til persónu sem var kennd við Fjall. Því er svo við þetta að bæta að karlmannsnafnið Jeppe eins og Jeppi á Fjalli heitir á frummálinu hefur tíðkast í Skandinavíu a.m.k. frá því á 15. öld og er upphaflega e.k. gælumynd af postulanafninu Jakob. Ekki er vitað til að Jeppi hafi verið notað sem karlmannsnafn á Íslandi en dæmi eru um það sem gælunafn á hundum.

Svo aftur sé vikið að enska heitinu jeep, þá er uppruni þess hreint ekki ljós. Oft er haft fyrir satt að það sé dregið af framburði skammstöfunarinnar GP sem að sögn stóð fyrir general purpose (vehicle) eða 'farartæki til almennra nota' en það á að hafa verið hið opinbera heiti herstjórnarinnar á þessu tæki. Sumir draga þessa skýringu þó í efa og er þá enn nefnd til sögunnar persóna úr bókmenntum. Þar er um að ræða furðuskepnu sem kom fram á sjónarsviðið um 1936 í myndasögunni um Stjána bláa (e. Popeye). Skepna þessi nefnist Eugene the Jeep og er mörgum hæfileikum prýdd, hún er m.a. forspá, getur gengið gegnum veggi og aðra farartálma en segir aðeins eitt orð: „jeep“. Sögurnar um Stjána bláa nutu mikilla vinsælda á stríðsárunum – rétt eins og herjeppinn – og því telja margir að jeppinn sé í raun nefndur í höfuðið á þessari persónu, sem eins og jeppanum voru fleiri vegir færir en öðrum.Heimildir:

Söfn Orðabókar Háskólans.

Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
Bontly, Glenn. 1998-2003. Jeep History. (http://www.webejeepin.com/Jeep-History.htm)
Helgi Þorláksson. 1994. Jeppi: Fyrsta áfangaskýrsla. Gullastokkur færður Gunnlaugi Ingólfssyni fimmtugum, 4. desember 1994; bls. 38-40. Reykjavík
Íslensk Orðabók. 2002. 3. útg. Ritstj. Mörður Árnason. Edda. Reykjavík.
Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson. 1982.Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Svart á hvítu. Reykjavík.
Søndergaard, Georg. 1979. Bogen om personnavne. Politikens Forlag. København.
wordorigins.org

 
Nafn:*
Netfang:
Skilaboð:*
Kóði: ?
 
2008 © Hjörtur Sævar Steinason | Keyrt á Oliver vefumsjón